Monday, October 13, 2008

Karmísk ástarlesning

Ég er ein af þeim sem finnst gaman að því að fletta í gegnum junk-mailið mitt annað slagið. Hverjum finnst ekki gaman að fá gylliboð annað slagið, hvort sem verið er að bjóða viagra, rolex nú já eða bara stærra typpi? Endrum og eins er þó hægt að leysa ráðgátur lífsins eða bara hversdagsleg vandamál með því að fletta junkinu. Í dag barst mér þetta:

Do you find yourself falling into the same pattern again and again in your choice of lovers, lovemaking and your fears regarding romance and intimacy? There is a very good chance that these tendencies come from unresolved issues in your past life romantic experiences. Put a stop to the cycle and change your love life today. Identify negative behavior patterns with a Karmic Love Reading and free yourself from any hindering influences of the past! Act now and save 20%

Aha! Þarna er komin ástæðan fyrir því að ég er enn á lausu. Klárlega er ég enn að kljást við issjú og komplexa frá ekki bara fyrri sambandi, heldur fyrri sambandi úr fyrra lífi. Á eflaust rætur sínar að rekja alla leið í hellinn, get alveg séð það í hendi mér að neantherdalsmakinn minn hafi neitað mér um feitasta bitann af risaeðlunni akkúrat þegar var sá tími mánaðarins. Svona hlutum verður maður auðvitað að vinna úr strax, ég sé það núna, það gengur ekki að láta þetta eyðileggja komandi aldir fyrir manni. En samt gott að vita að á þessum síðustu og verstu tímum sé enn til fólk þarna úti sem sé svo búið og boðið til að rétta týndum sálum eins og sjálfri mér hjálparhönd. Og þar á ofan gefa manni 20% afslátt!!! Ætli þau taki við íslenskum VISA-kortum? Allt til þess að frelsa sjálfa mig frá hindrandi áhrifum fortíðar...

Saturday, October 04, 2008

Vanrækta, visnaða bloggið

Já alveg rétt, ég á þetta blogg hér! Þetta vanrækta blogg. Mesta furða að það sé ekki að visna og deyja eins og blómið sem var prangað inn á mig um daginn. Mig, sem meira að segja tókst að drepa aloe vera plöntu á mettíma! Enda er það orðið ansi gult og visið. Eins og þetta blogg. Það er eins og þetta blogg hafi aldrei átt sér viðreisnar von eftir að ég byrjaði að ferðast svona mikið, enda finnst mér ég eiginlega ekki hafa frá neinu skemmtilegu að segja þegar ég er ekki að þvælast. Áður en ég lagðist á flakk bloggaði ég eins og vindurinn um allt og ekkert en nú er eins og það þurfi alltaf stórviðburð til að ég driti niður nokkrum línum. Stendur til bóta? Að sjálfsögðu...

En hvað á ég að segja? Nú, það er alltaf kreppan, nýja uppáhalds umræðuefnið. Fólk er farið að hamstra hrísgrjón og haframjöl í Bónus, allt eins undirbúið undir kjarnorkuárás eins og kreppuna miklu. Á maður að fara að byrgja sig upp á kúrekabaunum og fiskibúðingi? Maður spyr sig. Ég fór í Kringluna á miðvikudaginn og þar var fullt af fólki,um miðjan dag í miðri viku, og margir klyfjaðir pokum fullum af einhverju fíneríi. Allavega ekki núðlusúpum. Bara eins og venjulega. Kannski lesa þetta fólk ekki blöðin og horfir ekki á fréttirnar. Kannski bara vissu þau ekki að kreppan er komin. Eða kannski voru þetta bara túristar. Maður spyr sig líka að því...

Ég er allavega búin að ákveða það að vera róleg á þvælingnum í vetur, sama hversu mikið mig klæjar í iljarnar. Næsta ævintýri verður ekki fyrr en á næsta ári, að því gefnu að ég detti ekki niður á eitthvað frábærlega sniðugt og skemmtilegt sem ég verð að gera NÚNA, og líka að því gefnu að íslenska krónan verði ekki orðin álíka verðmæt og matador peningar á næsta ári. Fari svo illa að það gerist þá á ég allavega matador einhvers staðar, ég nota þá bara peningana úr því...

Það að næsta ævintýri er ekki á dagskrá fyrr en á seinni hluta næsta árs þýðir hins vegar að á meðan ætli ég að mæta í vinnuna svo gott sem sirkabát 5 sinnum í viku. Plúsmínus. Vá það er voða fullorðins! Enda er ég orðin 28 ára frá og með síðustu viku. Svo fullorðins er ég að verða að ég er svona um það bil alveg næstum því að beila á því að maður þurfi ekki að eiga bíl í henni Reykjavík (nú eða Kópavogi) og kannski það væri ekki verst í heimi að eiga eins og eina bíldruslu. Er það ekki ágætis byrjun þegar maður hefur aldrei átt neitt? Að reima á sig hlaupaskóna og byrja að blanda sér í lífsgæðakapphlaupið, og það svona í miðri kreppu? Bara sérdeilis prýðilegt held ég. Þjónar tilgangi mínum ágætlega. Þið vitið hvað mér finnst gott að gera hlutina öfugsnúna. Eigið við mig orð ef þið eigið druslu til sölu...

Saturday, July 26, 2008

Sumarið er tíminn

Á sínum tíma var ég satt að segja með smá efasemdir um ágæti þeirrar hugmyndar minnar um að minnka umtalsvert við mig vinnu og leika aðeins lausum hala. Var 60% vinna kannski of mikið af hinu góða? Er mikil vinna vetursins kannski að rugla mig aðeins í ríminu? Hvað á ég að gera við allan þennan tíma?

En eftir þetta



og þetta



og þetta



og þetta



og svo þetta



og auðvitað getum við ekki gleymt þessu



Eftir allt þetta þá er það deginum ljósara að þetta er ein besta hugmynd sem ég hef fengið lengi. Skreppferð til Danna í austfirsku blíðuna sem heiðraði Seyðisfjörð með nærveru sinni dagana sem ég stoppaði, fjölskylduferð til Kanada ætluð til þess að kynnast fjölskylduútibúinu þar og var eins við hefðum aldrei gert neitt annað en heimsótt þetta fólk svo vel var tekið á móti okkur, og svo Vestfjarðaútilega með hjúkkunum og Skúla steypireyði. Og sumarið rétt rúmlega hálfnað! Ég get ekki annað en litið aftur á undanfarin ár og þakkað mínum sæla fyrir það hversu lífið getur verið ljúft...

Kvöldið í kvöld hefur að mestu leyti farið í það að pakka niður í bakpokann minn því á morgun heiðra ég hálendið með nærveru minni og er stefnan tekin á Laugaveginn alræmda. Eftir að hafa þvælst um allan hnöttinn til þess að príla upp á fjöll þykir mér eiginlega algjör óhæfa að hafa ekki gengið þessa frægustu gönguleið Íslands. Ég hlakka mikið til og mér er alveg sama þótt það sé ekki þverfótað fyrir útlendingum þar, það er nú bara hressandi.

Áður en ég legg í hann þykir mér nú ekki úr vegi að útnefna mann vikunnar, en að þessu sinni er það Rúnar Ingi, litli frændi.



Þessi pjakkur er kominn vel á veg með sitt fjórða aldursár en engu að síðu vitur um aldur fram. Í gær áttum við djúpt spjall um lífið og tilveruna:

GL: En hvað heitir kærastinn minn?
RI: HEyyyyy þú átt engan kærasta!!!
GL: Æji úps... verð ég þá ekki bara að fá mér kærasta?
RI, með þessa hluti alveg á hreinu: Neeeeiiiii, þú þarft engan kærasta, þú átt pabbann þinn!!!

Hehehe... blessuð börnin eru bara ekkert svo galin ;)

Saturday, June 21, 2008

The way is your destination



Hvað getur maður sagt að leiðarlokum? Eftir 800 km, blóð, svita, tár, blöðrur, gubb og já, slatta af rauðvíni og fransbrauði? Eftir frábæra vinafundi, eftir fyndið fólk, eftir frábært fólk, eftir skrítið fólk og eftir fólk sem hefur óafvitandi áhrif á líf þitt það sem eftir er en á án efa aldrei eftir að sjá aftur?



Ég veit það allavega ekki. Pílagrímsferð er upplifun sem hreinlega er ekki hægt að lýsa. Stundum var maður svo glaður að maður skoppaði niður stíginn. Stundum var maður svo þreyttur að maður vissi ekki hvernig maður ætti að komast næstu 5 metra, hvað þá næstu 15 kílómetra. En maður fór samt. Eitt skref í einu, og á endanum þá kemst maður.



Aldrei að vita nema betri ferðasaga rati á vefinn fyrr eða síðar. Allavega pottþétt fleiri myndir! En núna er ég smá busy við að pakka fyrir Kanadaferðina sem hefst á mánudaginn! Sjáumst...


Tuesday, May 13, 2008

Sagan af thvi thegar vid Karitas svafum hja Spanverjanum

Sko... Thetta var thad sem gerdist. Eg byst vid thvi ad thetta hafi nu allt byrjad i Estella herna um daginn. Vid vorum ad ganga seinasta spol dagsins thegar vid heyrum hropad "Hola Reykjavik!" Ahh thad voru Spanverjarnir sem vid hittum a haedinni daginn adur. Vid gerdum heidarlega tilraun til ad spjalla thad sem eftir var leidar ad gistiheimilinu en samraedur voru tho takmarkadar, thar sem annar talar bara spaensku og hinn bara sma ensku.

Nu, thetta er svosum ekki frasogu faerandi nema hvad ad thennan sama dag fengum vid thessa alveg hreint brilliant hugmynd um postkort a spaensku til Mortu. Hversu snidugt vaeri thad? Vid hofumst vid skrifin thegar okkur datt i hug ad bidja thessa indaelu Spanverja ad hjalpa okkur, sem their og gerdu. Eg vissi nu aldrei almennilega hvad stod a thessu korti og kemst nu varla ad thvi ur thessu thvi thad var sent af stad en thad gleymdist ovart ad taka thad fram ad kortid aetti nu ad fara til Islands, en innihaldid var allavega einhvern veginn svona:

Kaera Marta, osfrv..... Vid erum bunar ad sja rosalega mikid af saetum strakum herna og finna okkur frabaera kaerasta. Hvad ertu eiginlega ad thvaelast a Islandi?

Eftir thetta kom natturlega ekkert annad til greina en ad kalla tha felaga Ricardo og Alberto kaerastana okkar. Alberto var kaerastinn minn, svona af thvi ad hann var yngri og natturulega rikari ;) Ricardo var kaerastinn hennar Karitasar, thott lengi vel myndi hun ekki hvad hann het og kalladi hann alltaf Rodrigo en thad er nu onnur saga. Hann Ricardo er nu alveg uppahalds, svipar i syn til Astriks gallvaska, nema bara med svart har og yfirvaraskegg.

Eftir ad hafa att thessa kaerasta i nokkra daga, og eftir ad vid tyndum minum kaerasta, forum vid ut ad borda med Ricardo og vinum hans, Francisko sem er lika kalladur Paco en vill samt frekar ad vid notum Francisko og hinum sem eg nadi nu aldrei almennilega hvad het. En allavega, thegar vid gengum inn a veitingastadinn, hvern sjaum vid annan en Hollendinginn glada i raudu sokkunum! Alltaf gaman ad sja thann felaga, og i thetta skiptid var hann ad borda thennan lika agalega girnilega rett, paella med alls kyns sjavarrettum. Eg hreinlega fann mig knuna til thess ad apa thetta eftir honum og pantadi thad sama.

REGINMISTOK! Eg fekk gubbuna af skrambans raekjunum (svona fyrir utan hvad var subbulegt ad borda thetta) og vid endudum naesta dag med rutunni til Burgos, thvi ekki labbar madur mikid med gubbuna. A rutustodinni hittum vid fyrir Nacho, eda snakkid eins og hann gengur nu adallega undir svona okkar a milli. Snakkid var med beinhimnubolgu og einmitt a leidinni til Burgos i hvild.

Eftir rolt fram og eftir Burgos i leit ad heppilegri gistingu endadi thetta nu thannig ad vid deildum hotelherbergi eina sjodheita nott (var mjog heitt a thessu hoteli sko) med Spanverja, thar sem vid medal annars styttum okkur stundir vid thad ad horfa a James Bond a spaensku. I llamo Bond... James bond.

Saturday, May 03, 2008

Bonne Camino

I dag er ég búin ad vera á gangi í 6 daga, og hef lagt 150 km ad baki. Ágaetis dagsverk thar inn á milli verd ég ad segja, nokkrar blodrur her og thar, sólbrunninn nebbi og vinsti kálfi og slatti af myndum.

Líf pílagrímsins er dásamlega einfalt. Madur vaknar snemma. Fyrir tá sem thekkja mig tá megid thid endilega dást ad thessu, ég fer á faetur um 6 leytid! og note bene snooza ekki! enda gaetu herbergisfélagar mótmaelt slíku og odru eins, en their hafa verid ansi margir. Fyrsta daginn vorum vid Karitas bara 2 saman í herbergi en daginn eftir thad sváfum vid í gomlum spítala fyrir pílagríma, sem tekur 120 manns í koju. Og thad var smekkfullt út úr dyrum.

En aftur ad degi hins árrisula pílagríms. Vaknar snemma, burstar tennur, plástrar blodrur og arkar af stad. Mjog gott ad ganga í byrjun dags ádur en sólin kemur upp og svo snaedum vid morgunmat einhvers stadar á leidinni, nortum í braud, vid kaupum okkur stundum jógúrt og stundum stoppum vid á kaffihúsum fyrir koffínfíklana (nefnum engin nofn en fyrsti stafurinn byrjar á K og endar á aritas ;). Og áfram orkum vid, 20-30 km í dag. Í dag gengum vid 31 og madur lifandi var ég threytt! Thad var líka mjog heitt í dag. Vid komust loksins á áfangastad kl. 14, sveittar, threyttar og án efa mjog rjódar en allt fullt í gistingu pílagríma hér í Torres del Rio. En húsfreyjan hér aumkadi sig nú yfir okkur og vid fáum ad sofa úti á svolum. Fyrsta nóttin undir stjornunum!

Thad fyrsta sem madur gerir er ad thvo i hondunum thau fot sem madur tharf ad thvo, svo ad thau thorni nú tímanlega, og annars eiginlega nennir madur thví ekki. Sídan tekur sturtan vid og hversu gód er sú sturta? Úff Kalli segi ég nú bara, alveg sama hvort hún er kold, volg eda heit, hún er góóóóód.

Pílagrímar hátta snemma en ná nú samt yfirleitt ad kanna nánasta umhverfi. Hver hefdi haldid ad manni thaetti gód hugmynd ad fá sér smá eftirmiddagsgongutúr eftir ad hafa gengid 30 km fyrr um daginn? Madur spyr sig, en thannig er thad allavega...

Kvedja af stígnum hédan á Spáni. Smá pepp-comment fyrir vidforulan pílagrím alltaf vel thegin...

Thursday, May 01, 2008

Afram gakk

Jaeja, ta er aevintyrid hafid og thad med miklum hvelli. I dag tti ad vera dagur 5 en vid erum tho bara buin ad ganga i fjora. Hvad skedi? Ju vid vorum vist heldur bjartsynar a tima milli tengifluga, er klukkutimi ekki nóg? ég meina, vid erum nú í pílagrímsferd! Er Gud ekki med okkur í lidi? Vid ádum í stadinn i Cambridge í gódu yfirlaeti í annars tómu Norfolk street, og hofum nú lagt ca. 100 km ad baki. Ekki svo slaemt fyrir 4 daga.

Sma blodrur hér og thar og nefid á mér er nú sjálflýsandi eftir mikinn sólardag í dag, en allt er gott bara. Brakandi blída, fyrir utan thokuna og syndaflódid fyrsta daginn, fallegt landslag og fullt af furdufuglum og gridarlega áhugaverdu fólki. Frábaert!

Spaenskan er á uppleid, nú get ég allavega líka sagt "raudvín"!!!!!

Friday, April 25, 2008

Pælingar (alls óskylt Páli Skúlasyni þó)

Þetta er það sem ég er að pæla þessa dagana:

  • Í ár eru 14 ár síðan ég fermdist. 14 ár síðan ég var 14 ára. Ég er semsagt orðin tvöfalt fermingarbarn. Fermingarbarn í ár fæddist sama ár og ég fermdist. Er tíminn ekki svolítið að fljúga? Hafandi sagt það, þá finnst mér reyndar mjög langt síðan ég var fermingarbarn...

  • Myspace-ið mitt er allt í einu farið að tala spænsku. Hvað er málið með það? Sneið frá almættinu? Það er reyndar staðreynd að ég hafði einsett mér að læra spænsku í vetur, svona áður en ég stigi aftur niður fæti á Spáni og er ekki enn byrjuð þótt að fæturnir báðir stígi sín næstu skref á Spáni næstkomandi sunnudag. En ég meina... Jón Jökull lánaði mér spænskukennandi bækurnar sínar! Ég bara skil ekki hvað stendur í þeim.

  • Ég er farin að hlakka voða mikið til Ólympíuleikanna í sumar. Ég elska Ólympíuleika, sama í hvaða árstíð þeir eru haldnir. Veit ekki hvað það er, mér hafa bara alltaf fundist þeir svo skemmtilegir. Ungmennafélagsandinn og allt það. Skemmtilegast af öllu finnst mér undarlegu íþróttirnar og sérstakt uppáhald eru samhæfðar dýfingar. Þvílík snilld! Hvernig fer fólk að þessu? Ætli ég væri góð í þessu? Er of seint að að byrja að æfa? Varla mikil samkeppni í samhæfðum dýfingum á Íslandi, vantar bara góðan félaga og þetta er bókað mál. Er einhver memm? Þetta brölt Kínverja í Tíbet er samt svolítið að skemma þetta fyrir mér en engu að síður þá er virkilega gaman að sjá heimsbyggðina mótmæla óréttlæti og þrátt fyrir allt þá gæti þetta orðið extra áhugavert þarna í sumar. Kemur einhver til með að gera eitthvað drastískt? Myndi ég þora því ef ég væri að keppa í samhæfðum dýfingum? Og Jeremías, hvað myndu Kínverjar gera þá? Hvernig er lífið í kínverskum fangabúðum? Ef er chow mein á hverjum degi þá er ég ekki spennt... Satt að segja finnst mér Kína orðið frekar scary svona á harðstjóralegan hátt og ég bara veit ekki hvort ég vilji nokkuð sjá þennan múr þeirra lengur. Og kannski ég geymi framann í samhæfðum dýfingum fram til næstu ólympíuleika. London beibí maður!


En allavega... sumarið byrjaði víst í dag og lítur bara skrambi vel út. Í tilefni af yfirvofandi ævintýrareisu er ég mætt á Skagann í afslöppun og samverustundir. Hingað til hef ég hins vegar bara borðað grillmat, lagt mig, sofnað yfir sjónvarpinu og jú, svo aðeins hvílt mig eftir vinnutörnina sem ég var að klára. Voða gott. Greinilegt að sumarið er að koma, bjart langt fram eftir kvöldi og yndislegt veður. Fyrsti dagur sumars og blankalogn á Akranesi. Sem þá þýðir að það er bara einn stilludagur eftir á Skaganum í sumar. Er ekki annars bara logn 2 daga á sumri í þessu rokrassgati? :p




Annars er allt tilbúið fyrir gönguna miklu. Ég er búin að pakka ofan í tösku, tékka hvort ég hafi nokkuð gleymt neinu og svo tékka aftur hvort ég hafi öööörugglega ekki gleymt neinu. Tossalistinn er vinur þinn;) Og svo vigta allt heila klabbið. Eftir heimsreisuna þá er ég ekkert feimin við tilhugsunina um meinlætalíf í 5 vikur og tókst að takmarka farangurinn við lítil 7,5 kg. Ekki svo slæmt fannst mér. Gönguskórnir mínir eru búnir að vera í dekri hjá pabba seinustu vikuna og svo sannarlega tilbúnir í slaginn.



Hins vegar dreymdi mig í nótt að ég væri komin til Frakklands, meira en tilbúin til þess að leggja í hann þegar ég allt í einu fattaði að gönguskórnir urðu eftir heima. Eins og góðvinur minn hann Andrés Önd myndi orða það: BRAAAA!!! Við skulum vona að það verði ekki örlög mín í þetta skiptið. En svona til að vera alveg viss þá ætla ég að mæta í flug Í gönguskónum. Bókað mál...

Sunday, March 23, 2008

Dagbókarbrot

Ég er svolítið mikið í "hvað var ég að gera á þessum tíma í fyrra" leiknum þessa dagana. Við Rósa kíktum á ferðabloggið hennar á fimmtudaginn og staðsettum okkur á Indlandi á þeim tíma í fyrra, einn af síðustu dögunum í bæ sem við varla getum nefnt. Í framhaldi af því gat ég nú ekki stillt mig um að kíkja í dagbókina sem ég hélt í ferðinni, bara svona til að sjá í hvernig hugarástandi ég var á einmitt þessum tíma í fyrra. Ég mæli annars mjög sterklega með því að halda dagbók á ferðalögum. Myndir segja jú alltaf meira en þúsund orð en satt að segja þá finnst mér dagbókin mín líka vera ómetanlega verðmæt og hef mikið gaman af því að glugga í hana.

19.mars 2007
... Á morgun ætlum við í strandbæ sem er u.þ.b. 2 tíma keyrsla utan Chennai, og hinn daginn eigum við svo langþráð flug til Kuala Lumpur! Jei! Ég get ekki beðið eftir að yfirgefa þetta guðsvolaða land og ég á erfitt með að ímynda mér aðstæður þar sem ég mun sjá ágæti þess að snúa aftur hingað. Aldrei að segja aldrei, en nei, aldrei...





21.mars 2007


... Í dag er 37 gráðu hiti í Chennai. Við tókum leigubíl aftur á flugvöllinn frá Mallaballapuram eða hvað nú sem það heitir (ca. 1 1/2 tími) og ég steinsofnaði á leiðinni enda höfum við tekið upp á því undanfarið að fá okkur miðdegislúr í mesta hitanum. Vaknaði mjög úrill í mengunarskýi frá eldgömlu "þríhjóli" eins og við erum farin að kalla tout-ana, rennandi sveitt og stíf í hálsinum, aum í rassinum. Já ég er bara ekkert voða vel stemmd og er án efa búin að tuða og tuða í krökkunum og auk þess hóta flugvallarstarfsmönnum alvarlegum líkamsmeiðingum (á íslensku)....





...Rósa grætti barn áðan. Það var reyndar frekar skondið, henni varð það á að brosa og veifa og krakkagreyið fór að hágráta. Hehe...

... Í Jaisalmer keypti ég hins vegar Holy Cow eftir Sarah McDonald, sem fjallar um Indland. Mér fannst hún fyndin fyrst en náði ekki að klára hana strax og núna meika ég ekki að lesa neitt sem fjallar um Indland. (Mætti í raun segja að ég væri orðin mjög bókstafstrúuð í Indlandsóþoli mínu). Ég reyndi að skilja hana eftir bæði í Chennai og Mallaballpurram en í bæði skiptið var ég nöppuð (Your book, you forget your book!!). Ugh. Ég get eiginlega heldur ekki selt hana því hún er illa rifin eftir veruna í bakpokanum. Hér á flugvellinum var henni hins vegar við táknræna, hátíðlega athöfn hent í ruslið. Ég er að hreinsa mig af fokking Indlandi...


Algjör snilld, ekki satt? Núna finnst mér þetta brjálæðislega fyndið og væri sko alveg til í að fara aftur til Indlands en ég man líka vel hvað ég var orðin pirruð og satt að segja stutt í að vera örvæntingarfull á þessum tímapunkti. Þið sem þekkið mig vitið allavega að það þarf skrambi mikið til þess að ég losi mig við bók. Meira að segja Sörli, sonur Toppu lifir enn góðu lífi á háaloftinu í Krókatúninu, án efa undarlegasta bókareign mín þó að ég hafi nú enn ekki haft fyrir því að lesa hana..

Á nákvæmlega þessum degi í fyrra man ég hins vega fullvel hvað var í gangi, og það án þess að nokkurn tímann þurfa að líta í dagbókina. Í gær átti Danni bróðir afmæli (jei!) og var það eina skiptið sem ég talaði við hann í allri reisunni (en hann getur svosum ekkert kvartað þar sem hann fékk póstkort frá öllum löndum). Ég hringdi í Danna fyrsta daginn í Kuala Lumpur, sem þýðir að á þessum degi í fyrra var annar dagurinn í Kuala Lumpur, aka lungnabólgudagurinn. Nice. Þá er nú skárra að vera á Íslandinu að háma í sig páskaegg...

Wednesday, March 05, 2008

Ekki-ferðablogg

Hey, hafið þið tekið eftir því að ég blogga orðið eiginlega bara ferðasögubloggum? Það er nú eiginlega skrambi slappt, er það ekki? Ég blogga eins og vindurinn þegar ég er búin að vera á þvælingi en satt að segja þá er svolítið erfitt að blogga um hversdagslega hluti þegar maður er búin að vera að blogga um óvenjulega hluti í langan tíma. En nóg komið, nú blogga ég aftur um daginn og veginn eins og mannsæmandi bloggara hæfir.

En hvað? Veðrið "sökkar" feitt, alltaf vont en sem gangandi vegfarandi þá er ég eiginlega hætt að pæla í því. Er voða ánægð með hettuna á jakkanum mínum og MP3 spilarann minn, ég lifi í eigin heimi með þessa gleðigjafa yfir höfðinu/í eyrunum og spáir ekki í veðri og vindum. Í þessu tilviki aðallega vindum. Ég verð nú reyndar svolítið pirruð þegar er mikið slabb og ég blotna í fæturna en þar get ég nú yfirleitt sjálfri mér um kennt. Suma daga verður maður víst bara að hætta að hafa áhyggjur af kúlinu og fara í gönguskónum.

Og af málum málanna, jah... Hvað er svosum mál málanna þessa dagana? Eru allir hættir að ræða nýjustu nýja borgarstjórn? Loksins? Persónulega held ég að þetta sé ill meistaraáætlun sem fréttamenn hafi hrint í framkvæmd því þeir höfðu ekkert skemmtilegt til að tala um og vildu beina sjónum fólks frá því miður skemmtilegra. Kallið mig kreisí, en hvenær tók nýji borgarstjórinn við völdum? Var það ekki akkúrat einmitt þegar EM stóð sem hæst og við áttum ekki svo mikið í "strákunum okkar" því þeir töpuðu svo mörgum leikjum? Tilviljun? Ég held ekki...

En hvað veit ég svosum? Ég veit allavega að sumarið er handan við hornið og lofar bara skrambi góðu. En meira um það seinna, þetta átti jú að vera ekki-ferðablogg...

Thursday, January 10, 2008

Skyldunostalgíublogg á nýju ári

Tíminn líður, því verður víst ekki neitað. 2008 er mætt á svæðið hvorki meira né minna. Því væri nú ekki úr vegi að óska vinum og vandamönnum nær og fjær síðkominna gleðilegra jóla og þakkir til allra þeirra sem gerðu árið 2007 alveg ógleymanlega æðislegt. Ekki það að ég hafi ekki skrifað jólakort, ónei hreint ekki! Ég skrifaði nokkur jólakort. Ég bara komst aldrei svo langt að finna á þau heimilisföng og setja þau í póst. Ég komst heldur aldrei í það að klára að skrifa öllum sem ég ætlaði mér að senda jólakort en það er kannski bara lán í óláni, ég meina... hverjar væru líkurnar á því að þau hefðu þá rambað í póst? En batnandi fólki er víst best að lifa, aldrei að vita nema þessi kort rati rétta leið eftir nokkur ár...

En þar sem nýtt ár er gengið í garð væri nú ekki úr vegi að líta aðeins um öxl og setja árið 2007 í hnotskurn. Eða allavega reyna það því að mér dettur engin hneta í hug sem gæti mögulega rúmað árið mitt 2007, sem var í alla staði einstaklega framúrskarandi. Hvað gerði ég ekki árið 2007? (Það segir sig væntanlega sjálft að hiið afar óheppilega og ófarsæla jólakortamál er ekki talið með, er það ekki?)

Á þessum tíma í fyrra var ég heimilislaus, atvinnulaus en nei, engan veginn allslaus. Nýflutt af Vitastígnum góða og allt dótið komið á háaloftið hjá pabba og mömmu, komin í launalaust leyfi frá Landsanum og án efa byrjuð að pakka í bakpokann minn á leið út í hinn stóra heim. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Tölfræði 2007 reiknast mér þannig:
Mánuðir í vinnu - 7
Mánuðir ÚR vinnu - 5
Lönd heimsótt - 13
Flugferðir - 28
Nýjar vinnur - 1
Ný híbýli - 1
Góðar stundir - óteljandi!

Hvernig er hægt að draga saman þá upplifun að fara í heimsreisu? Ég hitti fullt af fólki; gamla vini, nýja vini, fyndið fólk, skrítið fólk, undarlegt fólk, frábært fólk. Ég dansaði Hindí dansa í sari, ég vaknaði snemma til að horfa á sólarupprásina í Himalayafjöllunum, ég borðaði geitur og kengúrur, ég lærði að sörfa, ég eyddi heilum degi í hengirúmi með góða bók á strjálbýlli eyju, ég chillaði með gamla fólkinu í Flórída og var kölluð Gunna í fyrsta skiptið á ævinni. Úff hvar á ég að hætta?

Ég málaði baðherbergið og geymsluna í íbúðinni hans bróður míns, ég keyrði hringinn í kringum í Ísland í frábærra vina hóp, ég fauk um koll á hálendinu, ég prílaði upp á 3000 m háan tind í Pýreneafjöllunum og ég verslaði af mér #$%&Y#%/$ í Minneapolis. Ég byrjaði í nýrri vinnu eftir rúmlega 3 ára farsælan feril á gömlu deildinni minni og ég komst loks að því eftir öll þessi ár hversu virkilega gott er að búa í Kópavoginum.

Lífið var svosum ekki bara dans á rósum. Það var auðvitað þetta lítilræði með heimskulega malasísku lungnabólguna sem ég sýp enn afleiðingarnar af, ég átti í mikilli baráttu við of mikið vatn þar sem það átti ekki að vera undir lok árs og eins og allir Íslendigar sem ekki eru með steinhjarta grét ég mig í svefn vikum saman þegar ég hélt að aumingaja litli voffinn hann Lúkas væri dáinn. En auðvitað getur ekkert verið upp ef ekkert er niður, og svona allt í allt þá náði þetta ekki að hafa áhrif á heildarútkomuna sem gerir 2007 að frábæru ári. Ár sem verður erfitt að toppa en stefnan er sett hátt þegar kemur að ævintýrum ársins 2008. En meira af því seinna, hér verður botninn settur í þetta nostalgíu blogg með nokkrum áður óséðum augnablikum ársins 2007.




Í villtri trylltri undankomu undan grimma ísbirninum sem ég rakst á á ferðum mínum um Norðurskautið. Mæli ekkert sérstaklega með þessu, maður þarf ansi sterk bein til að þola slíkt og annað eins. Sérstaklega þegar mamma er á bak við linsuna ;)



Við Særún gerðumst fyrirsætur, tókum þátt í virtri fyrirsætukeppni vestan við pollinn en urðum fyrir miklum vonbrigðum, það er svooo erfitt líf að vera fyrirsæta! Svo fengum við ekki einu sinni að eiga hattana!



Sjálfsmyndin var í lægsta falli eftir fyrirsætu-fíaskóið og því var gripið til þess að fá sér smá sílikon í varirnar. Bara pínku pons, small small...

Ahhh, góðar stundir. Farið vel með ykkur...