Já alveg rétt, ég á þetta blogg hér! Þetta vanrækta blogg. Mesta furða að það sé ekki að visna og deyja eins og blómið sem var prangað inn á mig um daginn. Mig, sem meira að segja tókst að drepa aloe vera plöntu á mettíma! Enda er það orðið ansi gult og visið. Eins og þetta blogg. Það er eins og þetta blogg hafi aldrei átt sér viðreisnar von eftir að ég byrjaði að ferðast svona mikið, enda finnst mér ég eiginlega ekki hafa frá neinu skemmtilegu að segja þegar ég er ekki að þvælast. Áður en ég lagðist á flakk bloggaði ég eins og vindurinn um allt og ekkert en nú er eins og það þurfi alltaf stórviðburð til að ég driti niður nokkrum línum. Stendur til bóta? Að sjálfsögðu...
En hvað á ég að segja? Nú, það er alltaf kreppan, nýja uppáhalds umræðuefnið. Fólk er farið að hamstra hrísgrjón og haframjöl í Bónus, allt eins undirbúið undir kjarnorkuárás eins og kreppuna miklu. Á maður að fara að byrgja sig upp á kúrekabaunum og fiskibúðingi? Maður spyr sig. Ég fór í Kringluna á miðvikudaginn og þar var fullt af fólki,um miðjan dag í miðri viku, og margir klyfjaðir pokum fullum af einhverju fíneríi. Allavega ekki núðlusúpum. Bara eins og venjulega. Kannski lesa þetta fólk ekki blöðin og horfir ekki á fréttirnar. Kannski bara vissu þau ekki að kreppan er komin. Eða kannski voru þetta bara túristar. Maður spyr sig líka að því...
Ég er allavega búin að ákveða það að vera róleg á þvælingnum í vetur, sama hversu mikið mig klæjar í iljarnar. Næsta ævintýri verður ekki fyrr en á næsta ári, að því gefnu að ég detti ekki niður á eitthvað frábærlega sniðugt og skemmtilegt sem ég verð að gera NÚNA, og líka að því gefnu að íslenska krónan verði ekki orðin álíka verðmæt og matador peningar á næsta ári. Fari svo illa að það gerist þá á ég allavega matador einhvers staðar, ég nota þá bara peningana úr því...
Það að næsta ævintýri er ekki á dagskrá fyrr en á seinni hluta næsta árs þýðir hins vegar að á meðan ætli ég að mæta í vinnuna svo gott sem sirkabát 5 sinnum í viku. Plúsmínus. Vá það er voða fullorðins! Enda er ég orðin 28 ára frá og með síðustu viku. Svo fullorðins er ég að verða að ég er svona um það bil alveg næstum því að beila á því að maður þurfi ekki að eiga bíl í henni Reykjavík (nú eða Kópavogi) og kannski það væri ekki verst í heimi að eiga eins og eina bíldruslu. Er það ekki ágætis byrjun þegar maður hefur aldrei átt neitt? Að reima á sig hlaupaskóna og byrja að blanda sér í lífsgæðakapphlaupið, og það svona í miðri kreppu? Bara sérdeilis prýðilegt held ég. Þjónar tilgangi mínum ágætlega. Þið vitið hvað mér finnst gott að gera hlutina öfugsnúna. Eigið við mig orð ef þið eigið druslu til sölu...
Saturday, October 04, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Ja eg maeli med bilakaupum ef thu att kass..
Hlytur ad vera ad notadir bilar seu seldir a skidt og ingenting enda allar bilasolur fullar af theim, eda hvad??
Bara ekki yfirtaka lan hehe..
Annars kvarta eg ekki yfir kreppunni, ef eg reikna launin min i islenskum kronum ma segja ad thu hafi nu tvofaldast fra thvi ad eg byrjadi ad kenna... fae nu samt ekkert meira fyrir peninginn herna megin, bara gaman ad reikna... :p
Post a Comment