Jæja, ég var víst búin að lofa ferðasögu hérna og múgurinn eitthvað farinn að kvarta undan iðjulausi bloggi og óviðeigandi fyrirsögnum. Bara svona svo allir viti þá er ég mikill aðdáðandi Klaufanna og fékk sko alls ekki ógeð á því ágæta bandi í hringferðinni miklu, ónei. Ég held því ótrauð áfram að plögga þá skammarlaust og ég veit auðvitað að innst í hjartanu þykir öllum vænt um Klaufana, taki þeir til sín sem eiga ;)
En aftur að mér, það flaug mér til hugar að eiginlega verð ég að klára eina ferðasögu áður en ég get byrjað á annarri, og þar sem ég flýg á vit ævintýranna í Pýreneafjöllunum á föstudag er ég nú eiginlega komin á síðasta sjéns. Í ævintýri ágústmánaðar lá leiðin í Lónsöræfin í ofurmanna-og kvenna ferð á vegum starfsmannaráðs Landspítalans. Ferðalangar voru ég og Edda sjúkraliði af 11G, Gréta formaður starfsmannaráðs og Páll burðarmaður hennar, Guðrún hjúkka af gæsludeildinni og Sigurbergur svæfingalæknir, Brynja og Ásta úr sjúkraþjálfun, Bjarni úr launadeildinni, Steinunn og Birgitta sem eru lífeindafræðingar hjá íslenskri erfðagreiningu og Helgi, maður Steinunnar, og Ásta og Erna hjúkkur af bæklun. Fararstjóri var Auður og með í för var einnig Páll, framkvæmdastjóri Ferðafélagsins. Ansi fjölbreyttur hópum úr öllum hornum spítalans semsagt.
Við lögðum upp frá Stafafelli að morgni mánudags og vorum komin aftur þangað á föstudagseftirmiðdegi, en það sem fram fór þar á milli, jah, what happens in Lónsöræfi stays in Lónsöræfi, er það ekki? Við áttum einstaklega góða ferð og rötuðum í hin ýmsu ævintýri. Ansi gaman að segja frá því að nú hef ég gist ekki bara eina nótt heldur tvær nætur í gámi (ég veit hvað þið hugsið, og nei, við villtumst ekki á Kárahnjúka), tekið of stóran skammt af Swiss-miss (leiðir okkar munu skilja í bili), kynnst kamri sem nefnist Mordor og svei mér þá, ég held ég hafi sjaldan hlegið jafn mikið á 5 dögum enda ferðafélagarnir með eindæmum skemmtilegir.
Öll vorum við sammála um það að þema ferðarinnar væri "rok", enda ekki hjá því komist, eins og Kári vindur blés mikið á okkur. Ég er alveg á því að mér hefði aldrei dottið til hugar að keyra Kjalarnesið í öðrum eins blæstri en þarna vorum við að pufast á fjöllum með vindinn í fangið eins og algjörir bavíanar. Auðvitað er ekki í lagi með mann.
Þriðja daginn var svo hvasst að fólk þurfti að leiðast til þess eins að takast ekki á loft, fólk féll á hné sér, einn Páll-inn tókst á loft og hinn pissaði framan í sig. Þar að auki eru flestar myndirnar mínar frekar hreyfðar, enda ekki bjóðandi í það fyrir svona áhugamann eins og mig að taka myndir í þessum aðstæðum.
Afskaplega hressandi reynsla þar á ferð, að berjast svona við náttúruöflin og Lónsöræfin eru með eindæmum fallegt svæði. Tröllakrókar, sem sjást á myndinni hér fyrir ofan, held ég að hafi að öllu öðru ólöstuðu verið stórbrotnastir. Og auðvitað skánaði veðrið til muna seinasta daginn og sólin skein eins og hún hefði bara aldrei gert neitt annað. o jæja, það verður bara betra veður næst.
Ég bíð svo bara spennt eftir því að Gréta æðstistrumpur boði til myndakvölds eins og hún er búin að lofa, en aðstæður leiddu til eins sem leiddi til annars, sem svo leiddi til þess að ég hef gefið drengskaparloforð upp á það að ég flytji ljóðið "Fjallganga" eftir Tómas Guðmundsson á þessu myndakvöldi, og það vopnuð höfuðljósinu mínu góða. Ef þessir vitleysingar hefðu einhvern tímann eytt nóttinni í indverskri eyðimörk eða verið með úrilla herbergisfélaga á farfuglaheimilum vítt og dreift um heiminn hefðu þau örugglega ekki gert grín af höfuðljósinu fína, en greinilega hafa þau ekki lent í slíkum aðstæðum. Meira af því síðar...
Af öðru að segja í lífi mínu þá ligg ég heima í flensu, og er eiginlega mjög upptekin við að að hósta, hnerra og snýta mér, milli þess sem ég er á bömmer yfir því að vera lasin svona síðustu dagana í vinnunni og vorkenni mér yfir því hvað ég eigi nú bágt. Maður hefði nú haldið að 3 ár meðal krabbameinssjúklinga hefði kennt manni eitthvað en nei, aum flensa og ég á bara voða bágt. Ég var nú samt heldur betur nöppuð í gær þegar birtist mynd af mér á mbl.is, ussuss...
Þarna er ég í grárri peysu fyrir framan slökkvibílinn, frægðarsól mín rís greinilega á frekar óheppilegum tíma. En hey, flensa eða engin flensa, maður hleypur nú til þegar maður verður var við svartan reyk frá vinnustað föður síns, bara svona til að gá hvort sé ekki í lagi með kallinn...
Tuesday, August 28, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
Jibbý, loksins kom ný færsla og eins og ávallt kemur þú sögum skemmtilega frá þér og það er greinilegt að mörg ævintýrin hafa barið á dyrnar hjá þér. Vona að þér sé nú batnað og ef ég sé þig ekki áður en þú verð út þá GÓÐA FERÐ og hafðu það gott.... Knús og takk fyrir kaffið og gleiðileg jól
Hæhó, verður nú að láta þér batna flesnan, ekki hægt að leggja land undir fót hálf lasin :) en góða ferð til spánar og skemmtið ykkur nú vel, ég verð pottþétt með í ferðaanda enda þarna með eindæmum skemmtilegt fólk á ferð ;)
Kærar kveðjur Helga
Rosalegur dugnaður er þetta stelpa, bara allstaðar á ferð út um fjöll og firnindi..
Vona að þér batni flensan áður en þú flýgur út, góða ferð og góða skemmtun..
Post a Comment