Monday, October 13, 2008

Karmísk ástarlesning

Ég er ein af þeim sem finnst gaman að því að fletta í gegnum junk-mailið mitt annað slagið. Hverjum finnst ekki gaman að fá gylliboð annað slagið, hvort sem verið er að bjóða viagra, rolex nú já eða bara stærra typpi? Endrum og eins er þó hægt að leysa ráðgátur lífsins eða bara hversdagsleg vandamál með því að fletta junkinu. Í dag barst mér þetta:

Do you find yourself falling into the same pattern again and again in your choice of lovers, lovemaking and your fears regarding romance and intimacy? There is a very good chance that these tendencies come from unresolved issues in your past life romantic experiences. Put a stop to the cycle and change your love life today. Identify negative behavior patterns with a Karmic Love Reading and free yourself from any hindering influences of the past! Act now and save 20%

Aha! Þarna er komin ástæðan fyrir því að ég er enn á lausu. Klárlega er ég enn að kljást við issjú og komplexa frá ekki bara fyrri sambandi, heldur fyrri sambandi úr fyrra lífi. Á eflaust rætur sínar að rekja alla leið í hellinn, get alveg séð það í hendi mér að neantherdalsmakinn minn hafi neitað mér um feitasta bitann af risaeðlunni akkúrat þegar var sá tími mánaðarins. Svona hlutum verður maður auðvitað að vinna úr strax, ég sé það núna, það gengur ekki að láta þetta eyðileggja komandi aldir fyrir manni. En samt gott að vita að á þessum síðustu og verstu tímum sé enn til fólk þarna úti sem sé svo búið og boðið til að rétta týndum sálum eins og sjálfri mér hjálparhönd. Og þar á ofan gefa manni 20% afslátt!!! Ætli þau taki við íslenskum VISA-kortum? Allt til þess að frelsa sjálfa mig frá hindrandi áhrifum fortíðar...

Saturday, October 04, 2008

Vanrækta, visnaða bloggið

Já alveg rétt, ég á þetta blogg hér! Þetta vanrækta blogg. Mesta furða að það sé ekki að visna og deyja eins og blómið sem var prangað inn á mig um daginn. Mig, sem meira að segja tókst að drepa aloe vera plöntu á mettíma! Enda er það orðið ansi gult og visið. Eins og þetta blogg. Það er eins og þetta blogg hafi aldrei átt sér viðreisnar von eftir að ég byrjaði að ferðast svona mikið, enda finnst mér ég eiginlega ekki hafa frá neinu skemmtilegu að segja þegar ég er ekki að þvælast. Áður en ég lagðist á flakk bloggaði ég eins og vindurinn um allt og ekkert en nú er eins og það þurfi alltaf stórviðburð til að ég driti niður nokkrum línum. Stendur til bóta? Að sjálfsögðu...

En hvað á ég að segja? Nú, það er alltaf kreppan, nýja uppáhalds umræðuefnið. Fólk er farið að hamstra hrísgrjón og haframjöl í Bónus, allt eins undirbúið undir kjarnorkuárás eins og kreppuna miklu. Á maður að fara að byrgja sig upp á kúrekabaunum og fiskibúðingi? Maður spyr sig. Ég fór í Kringluna á miðvikudaginn og þar var fullt af fólki,um miðjan dag í miðri viku, og margir klyfjaðir pokum fullum af einhverju fíneríi. Allavega ekki núðlusúpum. Bara eins og venjulega. Kannski lesa þetta fólk ekki blöðin og horfir ekki á fréttirnar. Kannski bara vissu þau ekki að kreppan er komin. Eða kannski voru þetta bara túristar. Maður spyr sig líka að því...

Ég er allavega búin að ákveða það að vera róleg á þvælingnum í vetur, sama hversu mikið mig klæjar í iljarnar. Næsta ævintýri verður ekki fyrr en á næsta ári, að því gefnu að ég detti ekki niður á eitthvað frábærlega sniðugt og skemmtilegt sem ég verð að gera NÚNA, og líka að því gefnu að íslenska krónan verði ekki orðin álíka verðmæt og matador peningar á næsta ári. Fari svo illa að það gerist þá á ég allavega matador einhvers staðar, ég nota þá bara peningana úr því...

Það að næsta ævintýri er ekki á dagskrá fyrr en á seinni hluta næsta árs þýðir hins vegar að á meðan ætli ég að mæta í vinnuna svo gott sem sirkabát 5 sinnum í viku. Plúsmínus. Vá það er voða fullorðins! Enda er ég orðin 28 ára frá og með síðustu viku. Svo fullorðins er ég að verða að ég er svona um það bil alveg næstum því að beila á því að maður þurfi ekki að eiga bíl í henni Reykjavík (nú eða Kópavogi) og kannski það væri ekki verst í heimi að eiga eins og eina bíldruslu. Er það ekki ágætis byrjun þegar maður hefur aldrei átt neitt? Að reima á sig hlaupaskóna og byrja að blanda sér í lífsgæðakapphlaupið, og það svona í miðri kreppu? Bara sérdeilis prýðilegt held ég. Þjónar tilgangi mínum ágætlega. Þið vitið hvað mér finnst gott að gera hlutina öfugsnúna. Eigið við mig orð ef þið eigið druslu til sölu...