Sunday, March 23, 2008

Dagbókarbrot

Ég er svolítið mikið í "hvað var ég að gera á þessum tíma í fyrra" leiknum þessa dagana. Við Rósa kíktum á ferðabloggið hennar á fimmtudaginn og staðsettum okkur á Indlandi á þeim tíma í fyrra, einn af síðustu dögunum í bæ sem við varla getum nefnt. Í framhaldi af því gat ég nú ekki stillt mig um að kíkja í dagbókina sem ég hélt í ferðinni, bara svona til að sjá í hvernig hugarástandi ég var á einmitt þessum tíma í fyrra. Ég mæli annars mjög sterklega með því að halda dagbók á ferðalögum. Myndir segja jú alltaf meira en þúsund orð en satt að segja þá finnst mér dagbókin mín líka vera ómetanlega verðmæt og hef mikið gaman af því að glugga í hana.

19.mars 2007
... Á morgun ætlum við í strandbæ sem er u.þ.b. 2 tíma keyrsla utan Chennai, og hinn daginn eigum við svo langþráð flug til Kuala Lumpur! Jei! Ég get ekki beðið eftir að yfirgefa þetta guðsvolaða land og ég á erfitt með að ímynda mér aðstæður þar sem ég mun sjá ágæti þess að snúa aftur hingað. Aldrei að segja aldrei, en nei, aldrei...





21.mars 2007


... Í dag er 37 gráðu hiti í Chennai. Við tókum leigubíl aftur á flugvöllinn frá Mallaballapuram eða hvað nú sem það heitir (ca. 1 1/2 tími) og ég steinsofnaði á leiðinni enda höfum við tekið upp á því undanfarið að fá okkur miðdegislúr í mesta hitanum. Vaknaði mjög úrill í mengunarskýi frá eldgömlu "þríhjóli" eins og við erum farin að kalla tout-ana, rennandi sveitt og stíf í hálsinum, aum í rassinum. Já ég er bara ekkert voða vel stemmd og er án efa búin að tuða og tuða í krökkunum og auk þess hóta flugvallarstarfsmönnum alvarlegum líkamsmeiðingum (á íslensku)....





...Rósa grætti barn áðan. Það var reyndar frekar skondið, henni varð það á að brosa og veifa og krakkagreyið fór að hágráta. Hehe...

... Í Jaisalmer keypti ég hins vegar Holy Cow eftir Sarah McDonald, sem fjallar um Indland. Mér fannst hún fyndin fyrst en náði ekki að klára hana strax og núna meika ég ekki að lesa neitt sem fjallar um Indland. (Mætti í raun segja að ég væri orðin mjög bókstafstrúuð í Indlandsóþoli mínu). Ég reyndi að skilja hana eftir bæði í Chennai og Mallaballpurram en í bæði skiptið var ég nöppuð (Your book, you forget your book!!). Ugh. Ég get eiginlega heldur ekki selt hana því hún er illa rifin eftir veruna í bakpokanum. Hér á flugvellinum var henni hins vegar við táknræna, hátíðlega athöfn hent í ruslið. Ég er að hreinsa mig af fokking Indlandi...


Algjör snilld, ekki satt? Núna finnst mér þetta brjálæðislega fyndið og væri sko alveg til í að fara aftur til Indlands en ég man líka vel hvað ég var orðin pirruð og satt að segja stutt í að vera örvæntingarfull á þessum tímapunkti. Þið sem þekkið mig vitið allavega að það þarf skrambi mikið til þess að ég losi mig við bók. Meira að segja Sörli, sonur Toppu lifir enn góðu lífi á háaloftinu í Krókatúninu, án efa undarlegasta bókareign mín þó að ég hafi nú enn ekki haft fyrir því að lesa hana..

Á nákvæmlega þessum degi í fyrra man ég hins vega fullvel hvað var í gangi, og það án þess að nokkurn tímann þurfa að líta í dagbókina. Í gær átti Danni bróðir afmæli (jei!) og var það eina skiptið sem ég talaði við hann í allri reisunni (en hann getur svosum ekkert kvartað þar sem hann fékk póstkort frá öllum löndum). Ég hringdi í Danna fyrsta daginn í Kuala Lumpur, sem þýðir að á þessum degi í fyrra var annar dagurinn í Kuala Lumpur, aka lungnabólgudagurinn. Nice. Þá er nú skárra að vera á Íslandinu að háma í sig páskaegg...

3 comments:

Unknown said...

Gaman að heyra að þú sért kominn í blogg gírinn aftur! bið að heilsa öllum á klakanum og bæ þe vei þá er ég kominn með nýtt land í subway keppnina!!!!

Anonymous said...

jáhá það er sko alltaf best að vera á Íslandinu góða, er ennþá fullsödd af ævintýraferðalögum eftir Tailandsferðina forðum ;)
Kæra kveðjur úr hríðinni á Akureyri :)
Helga og Jóel

Bára Mjöll said...

Hef ekki litið við í dálítinn tíma og fannst fyndið að við höfum einmitt verið núna í þessum sama „hvað vorum við að gera á þessum tíma í fyrra“ fíling ;) Þá vorum við í Cornwall, ekki alveg jafn exótískt og Indland en samt dálítið spes. Og nú fer að styttast í næstu ferð hjá þér!
Bestu kveðjur úr sól og blíðu á Seyðis.