Thursday, January 10, 2008

Skyldunostalgíublogg á nýju ári

Tíminn líður, því verður víst ekki neitað. 2008 er mætt á svæðið hvorki meira né minna. Því væri nú ekki úr vegi að óska vinum og vandamönnum nær og fjær síðkominna gleðilegra jóla og þakkir til allra þeirra sem gerðu árið 2007 alveg ógleymanlega æðislegt. Ekki það að ég hafi ekki skrifað jólakort, ónei hreint ekki! Ég skrifaði nokkur jólakort. Ég bara komst aldrei svo langt að finna á þau heimilisföng og setja þau í póst. Ég komst heldur aldrei í það að klára að skrifa öllum sem ég ætlaði mér að senda jólakort en það er kannski bara lán í óláni, ég meina... hverjar væru líkurnar á því að þau hefðu þá rambað í póst? En batnandi fólki er víst best að lifa, aldrei að vita nema þessi kort rati rétta leið eftir nokkur ár...

En þar sem nýtt ár er gengið í garð væri nú ekki úr vegi að líta aðeins um öxl og setja árið 2007 í hnotskurn. Eða allavega reyna það því að mér dettur engin hneta í hug sem gæti mögulega rúmað árið mitt 2007, sem var í alla staði einstaklega framúrskarandi. Hvað gerði ég ekki árið 2007? (Það segir sig væntanlega sjálft að hiið afar óheppilega og ófarsæla jólakortamál er ekki talið með, er það ekki?)

Á þessum tíma í fyrra var ég heimilislaus, atvinnulaus en nei, engan veginn allslaus. Nýflutt af Vitastígnum góða og allt dótið komið á háaloftið hjá pabba og mömmu, komin í launalaust leyfi frá Landsanum og án efa byrjuð að pakka í bakpokann minn á leið út í hinn stóra heim. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Tölfræði 2007 reiknast mér þannig:
Mánuðir í vinnu - 7
Mánuðir ÚR vinnu - 5
Lönd heimsótt - 13
Flugferðir - 28
Nýjar vinnur - 1
Ný híbýli - 1
Góðar stundir - óteljandi!

Hvernig er hægt að draga saman þá upplifun að fara í heimsreisu? Ég hitti fullt af fólki; gamla vini, nýja vini, fyndið fólk, skrítið fólk, undarlegt fólk, frábært fólk. Ég dansaði Hindí dansa í sari, ég vaknaði snemma til að horfa á sólarupprásina í Himalayafjöllunum, ég borðaði geitur og kengúrur, ég lærði að sörfa, ég eyddi heilum degi í hengirúmi með góða bók á strjálbýlli eyju, ég chillaði með gamla fólkinu í Flórída og var kölluð Gunna í fyrsta skiptið á ævinni. Úff hvar á ég að hætta?

Ég málaði baðherbergið og geymsluna í íbúðinni hans bróður míns, ég keyrði hringinn í kringum í Ísland í frábærra vina hóp, ég fauk um koll á hálendinu, ég prílaði upp á 3000 m háan tind í Pýreneafjöllunum og ég verslaði af mér #$%&Y#%/$ í Minneapolis. Ég byrjaði í nýrri vinnu eftir rúmlega 3 ára farsælan feril á gömlu deildinni minni og ég komst loks að því eftir öll þessi ár hversu virkilega gott er að búa í Kópavoginum.

Lífið var svosum ekki bara dans á rósum. Það var auðvitað þetta lítilræði með heimskulega malasísku lungnabólguna sem ég sýp enn afleiðingarnar af, ég átti í mikilli baráttu við of mikið vatn þar sem það átti ekki að vera undir lok árs og eins og allir Íslendigar sem ekki eru með steinhjarta grét ég mig í svefn vikum saman þegar ég hélt að aumingaja litli voffinn hann Lúkas væri dáinn. En auðvitað getur ekkert verið upp ef ekkert er niður, og svona allt í allt þá náði þetta ekki að hafa áhrif á heildarútkomuna sem gerir 2007 að frábæru ári. Ár sem verður erfitt að toppa en stefnan er sett hátt þegar kemur að ævintýrum ársins 2008. En meira af því seinna, hér verður botninn settur í þetta nostalgíu blogg með nokkrum áður óséðum augnablikum ársins 2007.




Í villtri trylltri undankomu undan grimma ísbirninum sem ég rakst á á ferðum mínum um Norðurskautið. Mæli ekkert sérstaklega með þessu, maður þarf ansi sterk bein til að þola slíkt og annað eins. Sérstaklega þegar mamma er á bak við linsuna ;)



Við Særún gerðumst fyrirsætur, tókum þátt í virtri fyrirsætukeppni vestan við pollinn en urðum fyrir miklum vonbrigðum, það er svooo erfitt líf að vera fyrirsæta! Svo fengum við ekki einu sinni að eiga hattana!



Sjálfsmyndin var í lægsta falli eftir fyrirsætu-fíaskóið og því var gripið til þess að fá sér smá sílikon í varirnar. Bara pínku pons, small small...

Ahhh, góðar stundir. Farið vel með ykkur...

6 comments:

Evert said...

Mögnuð færsla, greinilegt að þú situr ekki aðgerðalaus, a.m.k. gerðir það ekki 2007...
Vona að þú toppir svo síðasta ár á þessu !!

Anonymous said...

Jeedúdamía...Held að það sé nánast vonlaust að toppa 2007...Hef samt þá trú að ef einhverjum takist það þá sé það þér:)

krems
Guðbjörg bílstjóri á Ravnari 4:)

Anonymous said...

Þú færð skammir í hattinn fyrir að setja þessa mynd á alnetið -en þakkir í hattinn fyrir árið 2007 :)
Sigurveig

Unknown said...

Hey, ég geri nú allavega ráð fyrir þér í heimsókn á norðurlandið á nýja árinu ;)
kveðja Helga

Goa said...

Jésús á jólaskónum...hvað ég var glöð á finna þessa síðu!!!
Og sjá og lesa allt sem þú ert búin að vera að gera! Alveg hrikalega gaman...ég sit hérna og brosi aftur fyrir eyru!
Gaman að allt gengur vel og...
Sjá hvað þú ert sæt..:)
Hingað kem ég aftur...bara svo að þú vitir!
Ástarkveðja til allra!
Gúa

Evert said...

Kominn með nýtt blogg, breyta linknum takk... www.everti.bloggar.is