Í tilefni af nýju ári þykir víst til siðs að líta til baka yfir farin veg. Þótt að sé nú reyndar komið fram í miðjan janúar finnst mér ég samt eiginlega ekki geta bloggað á nýju ári án þess að gera upp það gamla í einu góðu nostalgíubloggi, því að árið 2008 var nú einu sinni alveg einstaklega gott.
Ég kannski toppaði ekki 2007 en ég jafnaði það í það minnsta! Afrek ársins var nú klárlega pílagrímsgangan heila 800 km þvert yfir Spán. Blóð, sviti, tár, blöðrur klárlega ekki ættaðar af þessum heimi og matareitrun náðu ekki að skemma þessa einu ótrúlegustu upplifun lífs míns og hugurinn leitar óneitanlega alltaf annað slagið til "Camino", einfaldleikans og allra þeirra sem á vegi mínum urðu þar.
Eftir 5 vikna rölt um Norður Spán sá ég þó enga ástæðu til þess að staldra mikið við og í júní héldum við fjölskyldan öll saman til Kanada. Þar var ætlunin að eiga fyrsta sumarfríið saman erlendis í langan tíma um leið og við ætluðum að kynnast betur "kanadíska útibúinu" í fjölskyldu pabba. Af skorti yfir betri orðalag þá var þetta hrikalega vel heppnaður túr og þarna á austurströnd Kanada eyddum við 2 vikum í mjög góðu yfirlæti. Við kynntumst ættingjum sem við vissum varla að við ættum til, og í lok ferðar var eins og við hefðum aldrei gert neitt annað en heimsækja þetta frábæra fólk okkar.
Við nýttum tækifærið á meðan við vorum í Kanada og gengum í Íslensk-Kanadíska bjórdrykkjufélagið, sem er að sjálfsögðu mjööög hipp og kúl :P Klárlega eitthvað sem maður ætti að minnast á á starfsferilsskrá!
Í júlí var Skúli Steypireyður ofurtjald dreginn fram úr vetrardvalanum og endurnýjaði kynni sín við fimm afar hressar hjúkkur og einn mjög troðinn RAV4 í könnunarleiðangri slash skemmtiferð um Vestfirðina. Það var aðeins hlegið, aðeins drukkið og mikið keyrt (eða eitthvað svoleiðis). Í alla staði sérdeilis prýðileg ferð. Vestfjarðahjúkkan reyndist alls ekki síðri en Hringferðin Ógurlega sem farin var í fyrra með sömu aðalleikurum og þótt allir séu að keppast við að verða fullorðnir og fólk sé farið að fjölga sér í auknum mæli þá er eiginlega ekki hægt að taka annað í mál en að halda þessari vitleysu áfram á hverju ári. Við erum nú einu sinni eignarhaldsfélag og Skúli yrði væntanlega einmana ef honum yrði ekki tjaldað annað slagið, er það ekki???
Í júlí fór ég líka í fyrsta sinn Laugaveginn í fríðu föruneyti. Við gengum hálfa leið í brjáluðu veðri og hálfa leið í fáránlega góðu veðri. Ísland, best í heimi!
Laugavegurinn var mjög skemmtilegur og þannig atvikaðist það líka að ég eyddi fyrri helmingnum af heitasta degi ársins í það að ganga úr Emstrum í Þórsmörk, sem er náttúrulega einstaklega mikið keppnis. Seinni helmingnum eyddum við í rútuferð frá Þórsmörk til Reykjavíkur. Ekki alveg eins keppnis. En þess virði engu að síður.
Í september bar hæst frægðarför kanadísku frændanna á klakann. Þeir mættu á svæðið til að kynnast landi og þjóð og gerðu það heldur betur með stæl. Við þeyttumst með þá um landið þvert og endilangt (eða svona næstum því :) í yndislegu íslensku haustveðri; roki, rigningu og svo mikilli þoku að hvorki var séns að sjá móta fyrir fjallatoppum né norðurljósum. En þeir skemmtu sér vonandi vel engu að síður og tóku m.a. miklu ástfóstri við íslenskan lopa og skyr.
Úff, hvað gerðist svo aftur meira? Ég átti endurfundi við gamla vini í Englandi í ágúst, hitti hreindýr á röltinu á austurlandi og var sérlegur aðstoðarmaður bróður míns í rjúpnadrápi. Ég hafði það gott í höfuðborginni og stundum á Akranesi, og þrátt fyrir að það líti kannski ekki út fyrir það, svona miðað við það sem á undan kemur, þá mætti ég nú líka annað slagið í vinnuna. Hverju er ég að gleyma? Í desember fann ég jólakortin sem ég skrifaði í fyrra, á vissum stað ofan í skúffu. Ég sendi þau ekkert frekar en ég skrifaði ný, þannig að allir þeir sem áttu skilið jólakort bæði ár og í fyrra: Gleðileg jól!
Kreppan skall á en þar sem ég tók ekki þátt í góðærinu hef ég hingað til ekki þurft að hafa neinar áhyggjur af sjálfri mér, þótt ég sé þess fullviss að þjóðfélagið sé að fara fjandans til. Í tilefni kreppunnar keypti ég mér m.a.s. bíl! Já, ykkur finnst það kannski ekki stórmál en þetta er nú einu sinni fyrsti bíllinn minn og stórt skref fyrir svona vitleysing eins og mig, sem alltaf er með höfuðið í skýjunum og aldrei hefur meikað að eiga neitt af því að í fyrsta lagi kostar það of mikið og í öðru lagi er umsjón eigna alltof mikil skuldbinding til þess að það sé þess virði. En Bláa Þruman fékkst á spottprís og ég er alveg að ná tökum á þessu. Þannig veit ég að það er slæmt að keyra með handbremsuna á og slæmt bakka út af veginum í snjó, þótt það sé bara smá, og þannig festa sig lengst úti í rassgati; og gott að taka benín þegar kviknar appelsínugult ljós hjá myndinni af bensíndælunni og svo auðvitað á maður að bóna reglulega. Bílaeign og sú staðreynd, að ég er alveg næstum því kannski farin að drekka stundum kaffi styrkir trú mína á því að ég sé nú alveg næstum kannski því að verða fullorðin. Hvort sem það er nú gott eða slæmt...
Um áramótin bárust stórafmæli til tals, og svo vill til að á næsta ári eigum við bæði stórafmæli, ég og Danni frændi minn. Hann verður fertugur, ég verð þrítug. Danni taldi "Árið áður en ég varð fertugur" vera prýðisgott efni í bók, og ég (kannski búin að drekka einn eða tvo bjóra) taldi það enn betri hugmynd ef hann gerði það og ég myndi þá skrifa bókina "Árið áður en ég varð þrítug" og við myndum svo ferðast um landið og árita bækurnar okkar. Hey, það yrði allavega skemmtilegt road trip! Og Danni á líka tjaldvagn :) Engu að síður þá er Danni byrjaður að blogga á www.danielr.blog.is undir titlinum "Árið áður en ég verð fertugur" og hann kann alveg að skrifa, strákurinn. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að láta mitt eftir liggja og ætla þá kannski að herða mig aðeins við bloggskrif. Allavega oftar en á þriggja mánaða fresti. Byrjun árs 2009, árið áður en ég verð þrítug og hvar er ég í lífinu núna? Hjúkka á slysó, borgarbúi, einhleyp, barnlaus en ekki lengur eignalaus. Ferðalangur? Göngugarpur? I wish. En ég veit það ekki. Upp á hverju tek ég árið 2009? Upp á hverju tekur lífið? Ég bara vona að 2009 verði gott. Eða í það minnsta áhugavert. Ég ætla allavega að blogga um það...
En til að slá almennilega botninn í það ágæta ár þá er ekki úr vegi að m innast á áður óþekkt móment frá 2008 sem ekki eru á allra vitorði. Ekki margir vita þetta en snemma árs gáfum við pabbi skít í kerfið og fluttumst í Villta Vestrið til þess að sinna löggæslustörfum.
Daldónabræður hröktu okkur á endanum á brott enda villimenn miklir, dónalegir í þokkabót og stálu líka byssunni hans pabba. Við hrökluðumst aftur á Klakann en létum þó engan veginn bugast og pabbi fékk vinnu sem ísbjarnarveiðimaður. Að vissu leyti óheppilegt þar sem byssunni hans hafði verið stolið en hann lét það nú ekki aftra sér.
Þarna sést hann in-action skjóta þriðja ísbjörninn. Ójá. Það eru að vísu heldur ekki margir sem vita þetta en það voru þrír en ekki tveir ísbirnir á Íslandi í sumar. Pabbi skaut þann þriðja og ástæðan fyrir því að þetta er ekki á allra orði er þessi:
Já, það er rétt! Við mamma stóðumst ekki mátið og saumuðum okkur pelsa úr feldinum. Það er svo fjandi klæðilegt og allt það. Ekki nóg með það að við fengum forláta pelsa heldur fréttum við systkinin á samkomu hjá Íslensk-Kanadíska bjórdrykkjufélaginu að ísbjarnaklyftasambryskjute væri einkar gott við timburmönnum.
Já, það bara kom upp í samræðum! Og við erum ekki þekkt fyrir að láta slík gullin tækifæri úr hendi sleppa. En æji, ég veit það ekki... Ég held við höfum einhvern veginn klúðrað því. Kannski hefðum við átt að láta renna af okkur áður en við byrjuðum að hita teið. Kannski létum við það ekki sjóða nóg. Eitthvað var það. Mér allavega leið eitthvað skringilega á eftir...
Thursday, January 15, 2009
Subscribe to:
Posts (Atom)