- Í ár eru 14 ár síðan ég fermdist. 14 ár síðan ég var 14 ára. Ég er semsagt orðin tvöfalt fermingarbarn. Fermingarbarn í ár fæddist sama ár og ég fermdist. Er tíminn ekki svolítið að fljúga? Hafandi sagt það, þá finnst mér reyndar mjög langt síðan ég var fermingarbarn...
- Myspace-ið mitt er allt í einu farið að tala spænsku. Hvað er málið með það? Sneið frá almættinu? Það er reyndar staðreynd að ég hafði einsett mér að læra spænsku í vetur, svona áður en ég stigi aftur niður fæti á Spáni og er ekki enn byrjuð þótt að fæturnir báðir stígi sín næstu skref á Spáni næstkomandi sunnudag. En ég meina... Jón Jökull lánaði mér spænskukennandi bækurnar sínar! Ég bara skil ekki hvað stendur í þeim.
- Ég er farin að hlakka voða mikið til Ólympíuleikanna í sumar. Ég elska Ólympíuleika, sama í hvaða árstíð þeir eru haldnir. Veit ekki hvað það er, mér hafa bara alltaf fundist þeir svo skemmtilegir. Ungmennafélagsandinn og allt það. Skemmtilegast af öllu finnst mér undarlegu íþróttirnar og sérstakt uppáhald eru samhæfðar dýfingar. Þvílík snilld! Hvernig fer fólk að þessu? Ætli ég væri góð í þessu? Er of seint að að byrja að æfa? Varla mikil samkeppni í samhæfðum dýfingum á Íslandi, vantar bara góðan félaga og þetta er bókað mál. Er einhver memm? Þetta brölt Kínverja í Tíbet er samt svolítið að skemma þetta fyrir mér en engu að síður þá er virkilega gaman að sjá heimsbyggðina mótmæla óréttlæti og þrátt fyrir allt þá gæti þetta orðið extra áhugavert þarna í sumar. Kemur einhver til með að gera eitthvað drastískt? Myndi ég þora því ef ég væri að keppa í samhæfðum dýfingum? Og Jeremías, hvað myndu Kínverjar gera þá? Hvernig er lífið í kínverskum fangabúðum? Ef er chow mein á hverjum degi þá er ég ekki spennt... Satt að segja finnst mér Kína orðið frekar scary svona á harðstjóralegan hátt og ég bara veit ekki hvort ég vilji nokkuð sjá þennan múr þeirra lengur. Og kannski ég geymi framann í samhæfðum dýfingum fram til næstu ólympíuleika. London beibí maður!
En allavega... sumarið byrjaði víst í dag og lítur bara skrambi vel út. Í tilefni af yfirvofandi ævintýrareisu er ég mætt á Skagann í afslöppun og samverustundir. Hingað til hef ég hins vegar bara borðað grillmat, lagt mig, sofnað yfir sjónvarpinu og jú, svo aðeins hvílt mig eftir vinnutörnina sem ég var að klára. Voða gott. Greinilegt að sumarið er að koma, bjart langt fram eftir kvöldi og yndislegt veður. Fyrsti dagur sumars og blankalogn á Akranesi. Sem þá þýðir að það er bara einn stilludagur eftir á Skaganum í sumar. Er ekki annars bara logn 2 daga á sumri í þessu rokrassgati? :p
Annars er allt tilbúið fyrir gönguna miklu. Ég er búin að pakka ofan í tösku, tékka hvort ég hafi nokkuð gleymt neinu og svo tékka aftur hvort ég hafi öööörugglega ekki gleymt neinu. Tossalistinn er vinur þinn;) Og svo vigta allt heila klabbið. Eftir heimsreisuna þá er ég ekkert feimin við tilhugsunina um meinlætalíf í 5 vikur og tókst að takmarka farangurinn við lítil 7,5 kg. Ekki svo slæmt fannst mér. Gönguskórnir mínir eru búnir að vera í dekri hjá pabba seinustu vikuna og svo sannarlega tilbúnir í slaginn.
Hins vegar dreymdi mig í nótt að ég væri komin til Frakklands, meira en tilbúin til þess að leggja í hann þegar ég allt í einu fattaði að gönguskórnir urðu eftir heima. Eins og góðvinur minn hann Andrés Önd myndi orða það: BRAAAA!!! Við skulum vona að það verði ekki örlög mín í þetta skiptið. En svona til að vera alveg viss þá ætla ég að mæta í flug Í gönguskónum. Bókað mál...