Þá er ég snúin aftur heim eftir tveggja vikna dvöl á slóðum rauðvíns og ólífa. Og þvílík og önnur eins snilldarferð! Ekki er hægt að segja annað en hún hafi eiginilega heppnast fullkomlega í alla staði. Hæstvirtir ferðafélagar skemmtilegir með eindæmum og áfangastaðir fallegir og áhugaverðir. Hér er ferðin í máli og myndum, þó aðallega myndum;)
Við Sigga í góðum gír fyrsta daginn í Barcelona. Hattinn skrifa ég alfarið á Siggu enda allt henni að kenna að ég keypti hann. Engu að síður valsaði ég um alla Barcelona með hattinn, auðvitað vita allir að ef þú sért með hattinn þá ferðu örugglega í stuð;) Við Sigga gerðumst algjörir nördar, jæja ok meiri nördar en venjulega, og eyddum góðum tíma þennan dag í Barcelona í að skoða sjúkrahús sem við gengum fram á. Stórglæsilegar byggingar, aðeins fínna en Borgarspítalinn verð ég að segja ;) Við íhuguðum alvarlega að kíkja inn en hættum við, héldum kannski að yrði erfitt að þykjast eiga áríðandi og merkilegt erindi á sjúkrahúsið með stráhatt á höfðinu...
Þennan dag skoðuðum við líka Sagrada familia, ókláruðu kirkjuna hans Gaudi, og vorum eiginlega sammála um það að Gaudi bara hljóti að hafa verið á sveppum, svo mikil bilun er þetta. Seinna í ferðinni skoðaði ég líka Gaudi garðinn og fannst hann eiginlega ennþá magnaðri.
Við Edda vorum hoppandi glaðar að vera loksins, LOKSINS komnar til Spánar eftir margra mánaða tilhlökkun. Þarna erum við ekki langt frá hostelinu okkar fyrstu næturnar, sem var í alla staði mjög fyndið og skemmtilegt hostel.
Frá Barcelona héldum við norður til Pýreneafjallanna, nánar tiltekið Vall de Nuria, þar sem við öldum manninn í góðu yfirlæti næstu dagana. Þar vorum við á hosteli og eyddum dögunum í að ganga um fjöll og dali og kvöldunum í að drekka rauðvín og hlæja að matnum sem var á borðum það kvöldið. Seint hægt að segja að kokkurinn á hostelinu hafi ekki ríkt ímyndunarafl, aldrei áður hef ég séð neinn sjóða egg og skera það í helminga, skella yfir tómatsósu og nokkrum sveppum og kalla það svo kvöldmat! En við höfðum nú bara gaman af þessu öllu saman.
Sumir voru svo svangari en aðrir.
Við Marta á toppi Puigmal, hæsti tindurinn sem við fórum á, 2910 m. Ekki laust við að við höfum verið svolítið montin með þennan áfanga.
King of the world!
Umhverfið sem við gengum í var einu orði sagt stórkostlegt, og var hver dagurinn sem við gengum betri en sá næsti. Og ekki laust við að manni hafi hitnað aðeins í hamsi við púlið og hitann stundum.
Í Vall de Nuria skiptist svo litla föruneytið okkar upp. Sumir fóru heim, aðrir fóru á Costa Brava og Marta, jah, hvert var það eiginlega sem Marta fór? Ég hins vegar var ásamt Karitas og Karólínu í góðu yfirlæti í Andorra þar sem við versluðum allt of mikið og skemmtum okkur hið besta í þessu annars ágæta smáríki. Þar náði ég aðeins að þvælast um fjöllin líka en þykir mér leitt að greina frá því að þar gaf myndavélin mín góða upp öndina (grátur og gnístan tanna). Því lýkur hér ferðasögu í myndum og náði brölt mitt um fjöllin í Andorra og einstaki dagurinn okkar í Montserrat ekki að skrá sig á spjöld sögunnar með myndrænum hætti. Montserrat var í einu orði sagt algjör snilld, ótrúlega magnaður staður en sagan af því verður eiginlega að bíða betri tíma.
Næstmikilvægasta uppgötvunin sem ég gerði um sjálfa mig í þessari reisu var að vá, rosalega er ég slök í tungumálum sem eru ekki íslenska eða enska! Ég lenti í mörgum skondnum uppákomum, gleymdi t.d. iðulega hvernig á að segja lítill og þurfti því bara að panta stóran bjór og hinir ýmsu réttir rötuðu á diskinn minn þegar ég þóttist eitthvað vita eða reyndi að segja á spænsku, ber þar helst að nefna heilsteiktan gullfisk, baunasalat með túnfiski og ekki má svo gleyma grænu pizzunni, hún var mjög áhugaverð.
Einstaklega skemmtileg ferð og hápunktur sérlega skemmtilegs sumars. Nú tekur svo bara næsti kafli við...
Saturday, September 15, 2007
Subscribe to:
Posts (Atom)