Við byrjuðum sunnan megin, með fyrsta stopp á hnakkaútungarstöðinni Selfossi þar sem gæðablóðið Viktoría slóst í förina, og héldum sem leið lá í dýrindis hádegismat í Egilsstaðakoti, þar sem hún Guðbjörg sleit barnsskónum. Mikil tilhlökkun var í þennan dagskrárlið hjá leiðangursfólki, og hvað einna helst að hitta þar fyrir ömmu Guðbjargar en hún er vel þekkt meðal vinanna fyrir að eiga ráð undir rifi hverju, ansi gaman að fá þar andlit á bak við allar sögurnar.
Fyrstu nóttina áðum við í Skaftafelli þar sem tjaldið okkar fína, sem hlaut nafnið Skúli steypireyður hlaut frumraun sína í íslenskum aðstæðum.

Þarna er á að líta okkur ferðalanganna ásamt honum Skúla í Skaftafelli. Eins og glöggt má sjá er hann Skúli okkar á stærð við meðal-steypireyð og því lá beinast við að hann hlyti nafnbót sem hæfði upprunanum.
Úr Skaftafelli brunuðum við áleiðis austur á land og áttum þar ansi góða daga. Við tjölduðum m.a. í Atlavík, sóttum heim hana Önnu Birnu bekkjarsystur okkar sem var við störf á Kárahnjúkum, lentum í dýrindisveislu hjá familíunni á Seyðisfirði og áttum góðar stundir í bústaði afa og ömmu í Hjallaskógi, þar sem hún Helga bættist í hópinn eina nótt.
Frá austurlandi héldum við áleiðis norður í átt að Ásbyrgi, með viðkomu hjá Dettifossi, sem er bara alveg jafn skítugur og seinast þegar ég kom þangað!

Þarna er Viktoría með "skjalatöskuna" svokölluðu, kjarakaup sem hún mamma gerði í Góða Hirðinum og kom svo sannarlega að góðum notum. Við Dettifoss var að sjálfsögðu allt morandi í útlendingum en við létum okkur nú samt hafa það að borða flatkökur og kókómjólk innan um skarann...
Í Ásbyrgi áttum við svo yndislegar stundir í algjörri bongóblíðu. Það er bara alltaf eitthvað við Ásbyrgi er það ekki? Alltaf gott að koma þangað, eins og glöggt má sjá...

Úr Ásbyrgi héldum við svo á Blönduós, þar sem hún Viktoría hefur alið manninn undanfarið ár, og vorum þar seinustu nóttina, áður en brunað var aftur í bæinn.

Alveg einstaklega vel heppnuð ferð hér á ferð, takk fyrir mig kæru ferðafélagar!