Dagurinn í dag var einmitt svona dagur. Það er jú mánudagur og ég var að vinna alla helgina þannig að í dag átti ég frí. Ég svaf út og það vel og lengi, ég held svei mér þá að maður sofi extra vel á mánudagsmorgnum, sérstaklega ef það er fram á hádegi eða svo ;)
Veðrið í dag var bara sérdeilis prýðilegt og var pabbi svo góður að skutla mér upp í Akrafjall eftir hádegismat, þar sem hófst formlega undirbúningur undir Spánargönguna ógurlega sem farin verður í september ásamt göngugörpum af 11G. Enda ekki seinna vænna. Ég skrölti allavega upp á Háahnjúk á skítsæmilegum tíma án þess að fara mér að voða og stóð sæmilega vel í lappirnar þegar ég var komin niður. Svo er það bara áfram gakk í allt sumar...
Márus er líka svona vaktavinnufólk og var hann svo vænn að sækja mig í fjallið. Ég var kannski ofurhetja í dag að labba á Akrafjallið en ekki svo mikil ofurhetja að ég nennti að labba heim. Márus var líka svo ágætur að bjóða mér á rúntinn! Svei mér þá, ég man ekki hvenær ég rúntaði síðast á Akranesi en það er alveg örugglega frekar langt síðan. Við allavega rúntuðum um heilt hverfi sem ég hef hvorki komið í áður né hef tekið eftir að á annað borð væri til, þannig að þetta var bæði fræðandi og skemmtilegur rúntur enda hann Márus þekktur fyrir allt annað en að vera leiðinlegur, er það ekki annars?
Við Márus létum ekki staðar numið við rúntinn einan saman, ó nei, enda getur sumardagur á Íslandi verið skrambi langur. Við Márus fórum út að leika! Á meðan Særún gerði fullorðinsdót eins og að setja í þvottavél og brjóta saman þvottinn (hún vinnur dagvinnu sko ;) þá vorum við Márus úti að leika í fótbolta og að hoppa á trampolíninu. Við leyfðum reyndar Bjarti og vini hans að vera með líka og Særún slóst í leikinn seinna og gaman að segja frá því að hún varði eins og berserkur í markinu á ögurstundu. Ég reyndar tapaði en það var geðveikt gaman og ég skil ekki fyrir mitt litla líf af hverju ég hætti að leika úti. Ég ætla þó að fara að stunda þetta af kappi og reynist ég vera algjört undrabarn á trampólíninu, þótt ég segi sjálf frá. Það skemmdi þó óneitanlega stemninguna þegar ég tók eftir tollinum sem allar skriðtæklingarnar tóku af gallabuxunum mínum, ég var komin með grasgrænu í buxurnur! Obbobbobb, mamma verður brjáluð! Hún sagði að ég mætti fara út að leika en ég mátti samt ekki skíta mig út...

Við systkinin í barnæsku. Ég sem Rauðhetta og ég fæ ekki betur séð en hann bróðir minn sé í gervi skerfara. Þarna var ég nú ung og saklaus. Nú er ég auðvitað bara saklaus ;)
Mánudaginn fullkomna endaði ég svo enn og aftur hjá Særúnu og Márusi í litla græna húsinu á Krókatúninu, þar sem að þessu sinni var boðið upp á prýðisgóðan eftirrétt. Það voru kannski ekki grillaðir bananar með súkkulaðifyllingu eins og þeir gera það á Flórída, ekki alveg en þó næstum því. Bananaís með súkkulaðisósu, er það ekki bara næsti bær?